Index   Back Top Print

[ DE  - EN  - ES  - FR  - HU  - IS  - IT  - NL  - PL  - PT  - RO  - SV  - ZH ]

Boðskapur Benedikts páfa XVI
á föstunni 2006

En er Jesús sá mannfjöldann kenndi hann í brjósti um þá (Mt 9, 36)

 

Kæru bræður og systur!

Á iðrunartíma föstunnar er sérstaklega við hæfi að opna sig hið innra fyrir því sem er uppspretta miskunnarinnar. Þetta er pílagrímsför og Drottinn sjálfur fylgir okkur á göngunni um óbyggðina og veitir okkur kraft á leiðinni til hinnar miklu páskagleði. Guð verndar og styrkir okkur einnig í hinum „dimma dal“ sem sagt er frá í Sálmunum (23, 4) þegar freistarinn hvíslar að okkur að gefast upp eða treysta um of á verk handa okkar. Já, enn þann dag í dag heyrir Drottinn hróp hinna mörgu sem kalla eftir gleði, friði og kærleika. Þeim finnst þeir jafn yfirgefnir og á öllum öðrum tímum. En Guð leyfir ekki að myrkur skelfingarinnar ráði að fullu í heimi hræðilegrar eymdar, einstæðingsskapar, ofbeldis og hungurs sem sækir jafnt að gömlu fólki, fullorðnum og börnum. Eins og hinn ástsæli forveri minn Jóhannes Páll II skrifaði, eru í raun og veru til „takmörk sem Guð setti hinu illa“, en það er einmitt miskunnsemi hans (úr bókinni Identität und Erinnerung, s. 28 o.áfr; 74 o.áfr.). Allt þetta varð til þess að ég setti orð guðspjallsins við upphaf þessa boðskapar. Í ljósi hans vil ég stansa við margrædda spurningu okkar tíma, spurninguna um þróunina.

Enn í dag hrærist Jesús til meðaumkunar og horfir til manna og þjóða. Hann horfir til þeirra í ljósi þess að hin guðdómlega „áætlun“ kallar þá til hjálpræðis. Jesús þekkir þær hindranir sem standa í vegi fyrir þessari áætlun og kennir í brjósti um marga: Hann er þess fullkomlega reiðubúinn að vernda þá fyrir úlfunum, jafnvel þó að það kosti hann sjálfan lífið. Þannig „horfir“ Jesús til einstaklinga jafnt sem fjöldans og færir þá alla í umsjá Föðurins með því að fórna sjálfum sér sem friðþægingarfórn.

Kirkjan er upplýst af þessum sannleika páskanna og hún veit að ef við ætlum að ná fullum þroska verðum við að „horfa“ eins og Jesús gerði. Svarið við efnislegum og félagslegum þörfum mannsins er nefnilega alls ekki hægt að skilja frá fullnægingu dýpstu þrár hjarta hans. Því fremur ber að leggja mikla áherslu á þetta á okkar tímum því ákafar sem við skynjum lifandi og óumflýjanlega ábyrgð okkar gagnvart hinum fátæku í heiminum. Hinn virðulegi forveri minn Páll páfi VI lýsti skortinum á þróun og illum afleiðingum hans á þann hátt að hann sýndi vöntun á mannlegum tilfinningum. Í ljósi þessa fordæmdi hann í umburðarbréfi sínu Populorum Progressio: „efnislega neyð þeirra  sem skortir grundvallarlífsgæði; ... siðferðilega neyð þeirra sem eru helteknir af eigingirni; ... það ofbeldi sem á uppruna sinn í misneytingu eignarréttar eða valds og birtist í arðráni verkafólks og óréttmætum viðskiptaháttum“ (nr. 21). Móteitur við þessari meinsemd taldi Páll páfi VI ekki aðeins vera „greinargóða þekkingu um gildi mannsins, tillitið til anda fátæktarinnar, samvinnu öllum til heilla, friðarvilja“, heldur líka „viðurkenningu hinstu gilda af mannsins hálfu og viðurkenningu Guðs, uppsprettu hans og markmiðs“ (s.st.). Með hliðsjón af þessu hikaði páfi ekki við að fullvissa okkur um mikilvægi „trúarinnar fyrst og fremst“. „Guðs gjöf, meðtekin fyrir góðan vilja mannsins og einingin í kærleika Krists“ (s.st.). „Ásýnd“ Jesú býður okkur því á leggja áherslu á hið sanna inntak þeirrar „manngildisstefnu í fullum skilningi orðsins“, sem – og enn og aftur með orðum Páls páfa VI – á rætur í „víðtækri þróun alls mannsins og alls mannkynsins“ (s.st. nr. 42). Því er það ekki helsta verkefni kirkjunnar varðandi þróun mannsins og þjóðanna að útvega efnisleg gæði eða færa fram tæknilegar úrlausnir, heldur að boða sannleika Krists sem vekur samviskuna og styrkir virðingu mannsins, líkt og vinnan gerir, og styðja einnig þá menningu sem svarar öllum spurningum mannsins.

Andspænis þeim skelfilegu raunum fátæktarinnar sem hrjá marga menn er blinda eigin síngirni í óbærilegri mótsögn við „ásýnd“ Krists. Föstur þær og ölmusugjafir sem kirkjan mælir sérstaklega með á föstunni ásamt bæninni, bjóða hentugt tækifæri til að sameinast „ásýnd“ Krists. Fordæmi hinna heilögu og margvísleg reynsla úr boðunarstarfinu sem einkennt hafa sögu kirkjunnar eru dýrmæt tilvísun til þess hvers konar þróun ber að stuðla að. Og enn á okkar dögum, þegar allt er hvað öðru háð í heiminum, sjáum við að engin efnahagsleg, félagsleg eða pólitísk áætlun getur komið í stað þeirrar sjálfsfórnar fyrir aðra sem birtist í kærleikanum. Sá sem starfar í anda þessarar rökhyggju fagnaðarerindisins, lifir trúna sem vináttu við Guð sem varð maður og tekur að sér – líkt og Hann – og hugar að neyð náunga síns. Hann lítur á hann sem ómælanlegan leyndardóm sem krefst takmarkalausrar umhyggju og athygli. Hann veit að sá sem ekki gefur Guð gefur of lítið – líkt og hin sæla Móðir Teresa frá Kalkútta sagði: „Mesta fátækt þjóðanna felst í því að þær þekkja ekki Krist.“ Því skiptir öllu að finna Guð í miskunnsamri ásýnd Krists; án þessa tillits hvílir samfélag þjóðanna ekki á traustum grundvelli.

Margs kyns kærleiksrík miskunnarverk hafa karlar og konur unnið í kirkjunni fyrir traust sitt á Heilögum anda. Þetta fólk hefur reist sjúkrahús, stofnað háskóla, verkmenntaskóla eða lítil fyrirtæki. Þau stofnsettu þessi fyrirtæki því þau höfðu orðið fyrir áhrifum af fagnaðarerindinu: Löngu á undan öðrum hópum þjóðfélagsins færðu þau sönnur á að þau báru hag annarra raunverulega fyrir brjósti. Þetta frumkvæði vísar enn í dag leiðina sem gæti varðað allan heiminn og snertir alla menn þannig að varanlegur friður náist. Jesús kenndi í brjósti um marga og á sama hátt telur kirkjan það enn í dag vera sitt helsta verkefni að biðja þá sem ábyrgð bera í stjórnmálum, efnahagslífi og fjármálum, að stuðla að þróun sem virðir gildi sérhvers manns. Sérstakur prófsteinn þessarar viðleitni birtist í raunverulegu trúfrelsi – ekki aðeins hvað það snertir að geta boðað og tignað leyndardóm Krists, heldur einnig sem frelsi til að móta heim sem einkennist af náungakærleika. Það styður þessa viðleitni ef menn virða það meginhlutverk sem raunveruleg trúarleg gildi hafa í lífi mannsins, þegar rætt er um svör við hinstu spurningunum og um siðferðilega ábyrgð, bæði persónulega og félagslega. Með hliðsjón af þessum auðkennum læra kristnir menn einnig að meta áætlanir ríkisstjórna á skynsamlegan hátt.

Við getum ekki litið framhjá þeim mistökum sem margir þeirra sem hafa kallað sig lærisveina Jesú hafa gert í aldanna rás. Þeir áttu við mikil vandamál að etja og töldu ósjaldan að þeir yrðu fyrst að bæta jörðina og síðan að hugsa til himinsins. Þeir freistuðust til þess í ljósi þvingandi aðstæðna að álíta að fyrst yrði að breyta ytri uppbyggingunni. Þess vegna varð kristindómurinn í augum margra að siðferðisstefnu og aðgerðir komu í stað trúarinnar. Með réttu segir æruverðugur forveri minn Jóhannes Páll II.: „Nú á tímum felst freistingin í því að gera kristindóminn algjörlega háðan mannlegri visku, nokkurs konar fræði um hvernig gott líf á að vera. Í heimi sem einkennist mjög af hinu veraldlega hefur ,hjálpræðið smám saman fengið á sig veraldlegan blæ‘, sem menn berjast að vísu fyrir manninum til heilla, en þeim manni sem er aðeins hálfur og takmarkast við lárétt svið. Við vitum hinsvegar að Jesús kom til að færa umfangsmikið hjálpræði“ (Umburðarbréfið Redemptoris missio, 11).

Föstutímanum er einmitt ætlað að leiða okkur til þessa alltumlykjandi hjálpræðis, í ljósi sigurs Krists yfir öllu því illa sem hvílir á mönnunum. Þegar við snúum okkur til hins guðdómlega fræðara, þegar við gefumst honum á hönd og þegar við öðlumst miskunnsemi hans í sáttasakramentinu, sjáum við „auglit“ hans, sem horfir djúpt í sál okkar og rannsakar hana. Hann getur hjálpað mörgum og sérhverju okkar til að rísa upp á ný. Hann veitir öllum þeim sem ekki velkjast í vafa nýtt trúnaðartraust og lætur þá sjá ljósblik eilífrar sælu. Jafnvel þó að hatur virðist ríkja þá lætur Drottinn samt ekki, jafnvel á okkar tímaskeiði, neitt skorta á lýsandi vitni um kærleika hans. Ég fel Maríu, „lifandi uppsprettu vonarinnar“ (Dante Allighieri, Paradiso, XXXIII, 12), veg okkar á föstunni, að hún leiði okkur til Sonar síns. Ég fel henni sérstaklega þá mörgu sem enn þola fátækt og kalla eftir hjálp, stuðningi og skilningi. Með þessum orðum veiti ég öllum sérstaka postullega blessun mína.

Vatíkaninu, 29. september 2005

BENEDICTUS PP. XVI

 

© Copyright 2006 - Libreria Editrice Vaticana

       



Copyright © Dicastero per la Comunicazione - Libreria Editrice Vaticana